Áfangalýsing

         

 Framhaldsskólinn á Laugum

LEST1AA03 - Námsáætlun fyrir vorönn 2016

Kennari er Sverrir Haraldsson

.................................................................................................

Áfangalýsing: Í þessum áfanga er lögð áhersla á lestur, m.t.t. leshraða, lesskilnings og aukins orðaforða. Unnið er markvisst að eflingu lesskilnings og mikilvægi þess að nemendur njóti lestrar, bæði til gagns og gamans. Þá eru stundir (tímar/vinnustofur) þar sem nemendur greina frá því sem þeir eru að lesa og bera saman bækur sínar. Hver og einn heldur dagbók eða ská yfir lesefni sitt alla önnina.

Markmið:

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

·    Mikilvægi þess að vera sæmilega læs á texta.

·    Mismunandi textum og hvenær og hvar þeir verða til.

·    Mikilvægi góðs orðaforða.

·    Skemmtana- og notagildi hinna ýmsu bókmennta.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

·    Finna sér lesefni við hæfi og getu.

·    Nýta aukna lestrargetu til aukins lestrar og  framfara í námi.

·    Að segja frá og taka þátt í umræðum um lesefni sitt hverju sinn.

·    Að halda dagbók eða skrá yfir það sem lesið er á önninni.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

·    Að auka og bæta námsárangur sinn í öllum námsgreinum.

·    Segja frá og hlusta á aðra.

·    Meta gott lesefni og hafa af því gagn og gaman.

·    Meta eigið starf (lestur) yfir önnina.

Námsgögn:

Ekki er notuð nein ein náms- eða kennslubók. Nemendur velja sér bækur eða annað efni til lestrar, ekki síst eftir áhugasviðum. Lesa má jafnt skáldsögur eða smásögur, blaðagreinar og tímaritsefni eða efni af netinu. Mikilvægt er, m.t.t. til lestrargetu hvers og eins, að nemendur velji sér lesefni í samráði við kennara. Mikið er lagt upp úr samræðum og frásögn.

Námsmat:

Ekki er gefið fyrir í tölustöfum heldur með bókstöfunum S (staðið) eða F (fallið). Nemendur halda dagbók eða skrá yfir það sem þeir lesa yfir önnina og er lagt mat á það efni í lokin, auk kennaramats á þátttöku í umræðum. Þá meta nemendur eigin frammistöðu. Athuga þarf, að það er skylduefni sem kennari setur á dagskrá hverju sinni (Moodle), annað lesefni er valið í samráði við kennara.

Drög að áætlun um yfirferð (vinnuáætlun):

Gert er ráð fyrir að hver og einn vinni á sínum hraða, yfirferð og afköst verða því misjöfn. Áfanginn er á Moodle og þar munu koma ábendingar og viðmið fyrir nemendur um yfirferð og verkefni öðru hverju. Það er hægt að hafa það viðmið til hliðsjónar, að öðru leyti verður yfirferð og vinna í höndum nemenda í fullu samráði við kennara. Vinnustofur eru tilvaldar til að sinna þessum verkefnum í bland við fasta tíma/kennslustundir sem merktar eru sérstaklega þessum áfanga á stundaskrá.

Framhaldsskólinn á Laugum

SAGA1AB04 - Námsáætlun vorönn 2017

Kennari Sverrir Haraldsson

.........................................................................................................................

Áfangalýsing: Þetta er síðari söguáfanginn á almennri námsbraut. Hér er um að ræða þemaáfanga þar sem tekin eru fyrir atriði/þemu úr Íslands- og mannkynssögu á ýmsum tímum. Nemendur geta valið í hvaða röð þeir vinna viðkomandi atriði/þemu en þeir verða að skila vinnu úr a.m.k. 6 af 8 þáttum sem í boði eru (sjá þættina/þemun hér á eftir).

Markmið:

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • Þeim viðfangsefnum sem hann velur hverju sinni

  • Mismunandi tímabilum atburðanna

  • Mikilvægi hvers viðfangsefnis/þema fyrir sögu Íslands og annarra landa.

  • Mismunandi tegundum heimilda.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • Greina frá viðkomandi atburðum í sögunni

  • Staðsetja viðkomandi atburði með tilliti til tíma (tímaás)

  • Tengja viðkomandi atburði við aðra atburði í sögunni.

  • Að afla sér heimilda og nýta þær.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Vinna mismunandi verkefni og gera grein fyrir þeim

  • Finna heimildir, s.s á bókasafni með aðstoð bókavarðar

  • Vera fús og fær til samstarfs við aðra nemendur í sama áfanga (samvinnuverkefni)

  • Velja fjölbreytilegar aðferðir til að koma þekkingu sinni á framfæri.

Námsgögn:

Engin ein kennslubók er notuð en stuðst er við efni frá kennara, einnig ýmsar ritheimildir á bókasafni og internetið.

Námsmat og vægi einstakra námsþátta:

Hver þáttur eða þema vegur 10% (samtals 60%), vinna og vinnusemi 20% og æfing (lokakönnun) 20%.

Áætlun um yfirferð:

Gert er ráð fyrir að hver og einn geti unnið þessi verkefni eða þætti á sínum hraða. Eins og áður kom fram þarf nemandi að skila að lágmarki 6 verkefnum (þáttum). Tillaga að dreifingu vinnu er þannig:

Janúar :Verkefni nr. 1

Febrúar: Verkefni nr.2

Mars:Verkefnfi nr. 3 og 4

Apríl:Verkefni nr. 5 og 6

Maí: Lokakönnun og lok á því sem eftir verður.

Námsþættir (verkefni til að vinna):

1)  Víkingaöld og landnám á Íslandi (t.d. valinn landnámsmaður

2)  Snorri Sturluson og Sturlungaöld 

3)   Galdratrú og galdraofsóknir 

4)   Forn grísk og rómversk trúarbrögð 

5)  Síðari heimsstyrjöldin á Íslandi  

6)  Franska byltingin 1789

7)  Iðnbyltingin á 18. öld 

8)  Japan fyrr og nú 

        Nám á almennri námsbraut er að mestu leyti einstaklingsmiðað,  því vinna nemendur oftast nær eftir einstaklingsnámskrá. Í upphafi náms er reynt að taka mið af námslegri stöðu hvers og eins þannig að hægt sé að vinna síðan út frá þeim upplýsingum. Áhersla er lögð á það að nemendur verði sem fyrst nokkuð meðvitaðir um styrkleika sinn og veikleika í námi og læri að vinna með þær upplýsingar.  Unnið er með nemendum við að finna þá námsaðferð sem hentar hverjum og einum og sem flestar aðferðir kynntar. Þá er lögð áhersla á gagnsemi einstaklingsnámsskrár og mikilvægi þess að fylgja og fara eftir áætlun og setja sér markmið. Nám í framhaldsskóla krefst ábyrgðar því er farið nokkuð ítarlega í það hugtak og hvernig við sýnum af okkur ábyrgð í starfi og leik.

·        

Framhaldsskólinn á Laugum                                               haust 2019

LÍFS1AN02 - lífsleikni - almenn námsbraut

Farið er yfir mikilvægi þess að hver og einn finni fjölina sína í lífinu og fái að blómstra og njóta sinna hæfileika. Markvisst er leitað að styrkleika hvers og eins og nemendur hvattir til frumkvæðis og sköpunar á sem flestum sviðum. Áhersla er lögð á viðveru nemenda í kennslustundum og vinnustofum og fjallað í því sambandi um sjálfsábyrgð og sjálfsaga. Þá er ítrekað fjallað um mikilvægi heilbrigðs lífernis til líkama og sálar, s.s. holls mataræðis, hvíldar, hreyfingar, félagsskapar og það að forðast alla vímugjafa, löglega sem ólöglega. Engin ein kennslubók er notuð en stuðst við margvíslegt efni, bæði í bókum og tímaritum á bókasafni og á netinu. Námsmatið byggir á sameiginlegu mati kennara og hvers og eins nemanda.  Einkunn er gefin með L = lokið, B = bið, eða F = fall. Einkunn fylgir umsögn. Þá er stöðumat tvisvar á önninni.

 Helstu viðfangsefni áfangans eru:

a)Hvað er lífsleikni?  -  Hvers vegna lífsleikni?

b)Samskipti og samkennd

c)Heilbrigt líferni

d)Að bera ábyrgð - sjálfsábyrgð

e)Einelti og umburðalyndi

f)Fjölgreindir - Tilfinningagreind

g) Kvíði og streita

                                                                       Kennari er Sverrir Haraldsson


Framhaldsskólinn á Laugum                                                      haust 2019

 NÝRS 1AN02  - Nýr skóli – Almenn námsbraut

 Lýsandi heiti: Fyrstu skrefin í framhaldsskóla – samvinnuverkefni leiðsögukennara og umsjónarnemenda á almennri námsbraut.

 Framhaldsskólaeiningar: 2

Undanfari er enginn.

Áfangalýsing: 

 Áfanginn er samvinnuverkefni umsjónar-/leiðsögukennara og nemenda á almennri námsbraut. Markmiðið er að leiðbeina nemendum við fyrstu skrefin á nýju skólastigi. Farið er yfir þann mun sem er á námi í grunnskóla og framhaldsskóla og þá auknu ábyrgð sem fylgir því að vera kominn í framhaldsskóla. Farð er ítarlega yfir heimavistarreglur og aðra reglur skólans, skráðar sem óskráðar. Fjallað er um þann þátt að búa á heimavist og taka á annan hátt þátt í lífi heimavistarskóla í sveit. Í heimavistarskóla er samvera og samvinna nemenda mikil, því reynir oft á mikilvæga þætti eins og tillitsemi, nærgætni og umgengni sem og almenna kurteisi.  

 Áhersluatriðin eru:

 a) Að efla námsvitund og ábyrgð hvers og eins nemanda. Til hvers erum við í skóla?

 b) Kennslustofa/ vinnustofa

c) Þjónusta og aðstoð í skólanum. Kostnaður við námsdvölina.

d) Að vera góður skólaþegn.

 e) Að búa á heimavist – reglur, tillitssemi og háttvísi.

 f) Að ná góðum tökun á starfi og frístundum í skólanum. 

 Lokamarkmið áfanga: 

Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:

·       Þeirri ábyrgð sem fylgir því að stunda nám í heimavistarskóla og fara eftir þeim reglum sem þar gilda.

·       Mikilvægi þess að sinna  námi vel jafnt í kennslustundum og vinnustofum.

·      Þeirri þjónustu og aðstoð sem fáanleg er í skólanum og þeim kostnaði sem skólavistinni fylgir.

·       Mikilvægi þess að efla félagsvitund og taka þátt í félagsstarfi nemenda.

 Nemandi skal hafa öðlast leikni í að

 * Sinna námi og fylgja stundaskrá skólans og skólareglum

* Nýta kennslustundir og vinnustofur til hins ítrasta.

* Nota þá þjónustu og aðstoð sem skólinn býður upp á.

*  Sinna félags - og áhugamálum sínum í samvinnu við aðra nemendur.

 Nemandi skal geta hagnýtt sér þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að: 

·      Verða góður og ábyrgur skólaþegn

·       Ná námsmarkmiðum sínum

·       Eiga góða og gleðiríka skólavist í Framhaldsskólanum á Laugum. 

·       Auka sjálfsvirðingu sína.

Námsmat byggir á almennri virkni og þátttöku í námi svo og öðru því starfi sem fram fer á námsbrautinni. Þá er tekið tilliti til umgengni, samskipta við aðra skólaþegna og sjálfsvirðingar. Hver mánuður á önninni er gerður upp í samvinnu kennara og nemenda og þá eru gefnar umsagnir um hvernig starfið er að ganga. Í lokin er svo staðan metin hjá hverjum og einum og einkunn gefin; L = lokið, B = bið, eða F = fall. Þá er stöðumat tvisvar  á önninni sem einnig gefur vísbendingar um stöðu mála í áfanganum.

                                           Kennari er umsjónarkennari brautar Sverrir Haraldsson

 

 


Þessi áfangi er þemaáfangi í Íslands - og mannkynssögu fyrir nemendur á almennri námsbraut. Hann er hugsaður sem æfing og undanfari að næstu söguáföngum. Unnið er samkvæmt einstaklingsnámsskrám. Lokaeinkunn er gefin í tölustöfum, frá 1 til 10, en nemendur fá einkunn fyrir hvert þema.